FRÉTTIR

Unnustinn er krefjandi viðskiptavinur

Starri Freyr Jónsson skrifar
Parið á bak við SlaufHann er Elísa Hallgrímsdóttir, sem sér um hönnunina, og unnusti hennar Dagur Jónsson, sem sér um markaðs- og sölumál. Með á myndinni er sonur þeirra sem að sjálfsögðu klæðist slaufu.MYNDIR/EYÞÓR

Slaufurnar frá SlaufHann hafa vakið athygli undanfarið ár en um er að ræða handsaumaðar slaufur byggðar á íslenskri hönnun. Slaufurnar eru úr tweed-efni, bómull eða silki og ber hver þeirra karlmannsnafn sem tengist fjölskyldu hönnuðarins, Elísu Hallgrímsdóttur.

„Unnusti minn, Dagur Jónsson, hefur alltaf verið mikill slaufumaður og er án efa mest krefjandi viðskiptavinur minn. Ég byrjaði á sínum tíma að föndra slaufur fyrir hann og vinir hans urðu mjög hrifnir. Dagur hvatti mig mikið til þess að keyra á þetta verkefni og koma slaufunum í sölu. Á þessum tíma voru aðilar á markaðnum að selja herraslaufur sem okkur þótti mjög flottar og því vorum við ekkert að leggja mikið upp úr því að stækka þetta áhugamál.“

Fallegar og litríkar slaufur gera mikið fyrir heildarútlitið og henta öllum aldurshópum.

 

Örlagaríkt ár

Þegar leið nær jólum 2015 fóru hlutirnir þó aðeins að breytast.

„Þá ákvað ég að gefa fjölskyldumeðlimum slaufur með jólapakkanum auk þess sem vinir og kunningjar sóttu í slaufurnar fyrir jólin. Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á því að mér þætti þetta bæði mjög skemmtilegt og gefandi verkefni.“

Verkaskiptingin milli þeirra er skýr, Elísa sér um hönnun og Dagur sér um allt sem tengist markaðs- og sölumálum.

 

„Unnusti minn, Dagur Jónsson, hefur alltaf verið mikill slaufumaður og er án efa mest krefjandi viðskiptavinur minn. Ég byrjaði á sínum tíma að föndra slaufur fyrir hann og vinir hans urðu mjög hrifnir," segir Elísa Hallgrímsdóttir.

 

Feðgaslaufur vinsælar

Hún segir eftirspurnina hafa aukist mikið undanfarið ár. „Við fórum líka af stað með minni slaufur fyrir krakka og unglinga ásamt því að prófa okkur áfram með ungbarnaslaufur sem hafa vakið mikla lukku, sérstaklega í kringum hátíðirnar. Um mitt ár 2017 hóf ég að þróa feðgasett en persónulega finnst mér geggjað að sjá feðga með slaufur í stíl. Í dag er feðga- og bræðrasettið vinsælustu vörur okkar.“

Við þá þróunarvinnu fannst henni þurfa að hanna eitthvað fyrir litlu dömurnar líka. „Ég ákvað því að útbúa spöng og teygju í hárið með sömu slaufu og faðirinn er með. Eftirspurnin var til staðar þannig að ég ákvað að slá til og er ég virkilega ánægð með útkomuna.“

 

Slaufurnar eru úr ýmsum efnum og í mörgum skemmtilegum litum.

 

Heita karlkynsnöfnum

Snemma í ferlinu ákvað Elísa að gefa hverri slaufu nafn eftir karlmanni í fjölskyldunni, nöfn á borð við Brynjólfur, Alexander, Hallgrímur og Franz.

„Það var lítið mál í upphafi en eftir að úrvalið jókst hefur verið vægast sagt erfitt að nefna þær. Bráðum verð ég eflaust uppiskroppa með nöfn en ætlunin er að halda áfram með vöruþróun og koma með nýjar og skemmtilegar hugmyndir fyrir nýjar slaufur.“

 

Sýnishorn af feðgaslaufunum vinsælu.

 

Nýjar vörur fram undan

Fram undan er enn frekari vöruþróun og betra úrval svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Okkur langar mikið að koma með vörulínu fyrir ungar stelpur sem allra fyrst, þar sem sú hugmynd hefur fengið frábærar undirtektir. Svo eru fermingar á næsta leiti og þar verðum við með skemmtileg tilboð. Markmiðið er einnig að taka þátt í Mottumars og vonandi fleiri viðburðum á árinu. Annars verður virkilega spennandi að sjá hvað árið mun bjóða upp á og hvernig verkefni við munum takast á við á árinu. Nú þegar er byrjað að panta fyrir fermingarnar og þar er mikið af sérpöntunum í gangi.“